66°Norður hefur hafið samstarf við efnaframleiðandann Gore og mun frá og með næsta hausti bjóða upp á alls 14 flíkur úr efnum frá fyrirtækinu, þar á meðal úr GORE-TEX.

66°Norður frumsýndi fyrstu flíkur sínar úr Gore efnum á ISPO, stærstu sport og útivistarsýningu heims, í lok janúar en þær eru væntanlegar í verslanir fyrirtækisins næsta haust.

Á sýningunni kynnti Gore nýjan fulltrúa fyrirtækisins sem er spænski þjálfarinn Pep Guardiola sem vart þarf að kynna en hann þjálfar Bayern Munchen og þjálfaði áður Barcelona. Í tilefni af samstarfi Gore og Guardiola var haldinn blaðamannafundur.

Þegar Guardiola var inntur eftir því af hverju hann væri í samstarfi við fyrirtæki eins og Gore svaraði hann því að hann stæði úti í öllum veðrum alla daga.  Eftir að hann flutti til Þýskalands frá Spáni fór hann að finna áþreifanlega fyrir því að hann hefði not fyrir betri hlífðarfatnað en hann væri vanur á Spáni. Hann þyrfti einfaldlega að vera klæddur þannig að rigning, snjór, rok o.s.frv. hefði ekki áhrif á einbeitingu hans á leikjum og æfingum.

Samningur Gore og Guardiola þýðir að hann mun klæðast flíkum úr efnum fyrirtækisins næstu fjögur árin.  Guardiola sagðist í samtali við Helga Rúnar Óskarsson, forstjóra 66°NORÐUR, hlakka til að máta nýju GORE flíkurnar frá fyrirtækinu þegar þær koma á markað næsta haust. Þær eiga án efa eftir að nýtast honum vel þegar hann flytur til Manchester í sumar.

Fyrirtækið W. L. Gore and Associates var stofnað árið 1958 af Bill Gore og er velta fyrirtækisins rúmir þrír milljarðar bandaríkjadala. Fyrirtækið hefur verið leiðandi þegar kemur að vatnsheldum efnum í útivistarflíkur og mun á árinu fagna 40 ára afmæli GORE-TEX efnisins. Auk þess að framleiða efni í útivistarfatnað framleiðir fyrirtækið efni sem notuð eru í læknisfræðilegum tilgangi og fjölda annarra efna sem eru notuð í iðnaðar- og lyfjaframleiðslu.