66°Norður opnaði barnafataverslun í Illum í Kaupmannahöfn á laugardaginn. Um er að ræða 25 fermetra verslunarrými, sem hannað var af íslenska hönnunarteyminu HAF.

„Árið 2013 festi ítalska fyrirtækið La Rinascente kaup á Illum og hefur undanfarið ár lagt mikið fjármagn í að endurbæta útlit og skipulag verslunarinnar og er ljóst að þessi 123 ára danska verslun er nú komin í hóp allra glæsilegustu verslana Evrópu," segir í tilkynningu frá 66°Norður.

„Opnun verslunar 66°Norður í Illum kemur í kjölfar eigin verslunar sem fyrirtækið opnaði í Kaupmannahöfn í lok október og er fyrirtækið því að styrkja stöðu sína enn frekar á danska markaðnum."

„Illum leggur mikinn metnað í að bjóða upp á sterk og vönduð vörumerki og er það því mikill heiður fyrir 66°Norður að vera eitt af þeim merkjum sem verslunin teflir fram," segir Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri 66°Norður í tilkynningu. „Þetta er mjög spennandi skref fyrir okkur og við hlökkum til að aðstoða yngstu útvistargarpana í Kaupmannahöfn við að takast á við dönsku lægðirnar."