66°Norður opnaði nýja verslun á Strikinu í Kaupmannahöfn í dag. Verslunin er í fallegu og virðulegu verslunarhúsnæði á Østergarde 6 á Strikinu í nálægð við Kongens Nytorv. Húsið var byggt árið 1826 og er því heilum 100 árum eldra en 66°Norður sem var stofnað árið 1926 á Suðureyri.

Verslunin er um 90 fermetrar að stærð og stefnt er að því að bjóða upp á vinsælustu vörur íslenska fataframleiðandans þar. Þetta er önnur verslun 66°Norður í miðborg Kaupmannahafnar en fyrirtækið rekur fyrir verslun í Sværtegade í miðborg Kaupmannahafnar.

„Opnun verslunarinnar er rökrétt næsta skref eftir góðar viðtökur vörumerkisins í Danmörku. Þrátt fyrir nálægð verslananna þá er um ólíka markhópa að ræða. Heimamenn versla meira í Sværtegade, sem er hliðargata í miðborg Kaupmannahafnar, en ferðamenn koma meira á Strikið. Það hefur verið mikill vöxtur í verslun með fatnað á Strikinu og þar hafa margar lúxusverslanir opnað að undanförnu og má þar nefna Louis Vitton, Cucci og Hermes,“ segir Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri 66°Norður.

Þess má geta að danska tímaritið Euroman nefndi 66°Norður nýlega eitt af þrettán áhugaverðustu vörumerkjum á Norðurlöndunum sem lesendur ættu að fylgjast með.