66°Norður hefur stofnað dótturfélagið 66°North USA til að sinna málum fyrir Norður Ameríkumarkað. Síðustu fimm ár hefur félagið haft þarlendan dreifingaraðila sem sá um sölu- og dreifingarmál fyrir Bandaríkin og Kanada. Ákvörðun var tekin um að halda því fyrirkomulagi ekki áfram og opna í staðinn sérstakt dótturfyrirtæki með skrifstofu í New York.

"Með þessu móti höfum við fullt vald á vörumerkinu, verðlagningu og stöðu á markaðinum," segir Halldór G. Eyjólfsson, forstjóri 66°Norður, í tilkynningu. "Þetta er næsta skref í að ná enn meiri útbreiðslu og árangri á þessum gríðarlega stóra og samkeppnisharða markaði."

Í tilkynningu er bent á að útrás fyrirtækisins hefur verið hröð undanfarið og hefur fyrirtækið aukið útflutning stórlega. Í dag flytur 66°Norður út vörur til 15 landa. "Þessi hraða uppbygging er afrakstur þeirrar markaðs- og hönnunarvinnu sem við höfum verið að vinna í undanfarin ár. Í dag fer mest af framleiðslu fyrirtækisins fram í tveimur verksmiðjum sem við eigum í Lettlandi og vinna rúmlega 200 manns hjá 66°Norður þar. Miðað við aukningu í sölu, bæði hér heima og erlendis, þurfum við að finna lausn á framleiðslumálum fyrirtækisins í náinni framtíð, því í dag erum við að fullnýta þessar tvær verksmiðjur okkar."

Aðspurður segist Halldór lítið vilja segja um opnun búðar í New York, en margir muna eftir þegar 66°Norður opnaði tímabundið verslun á Manhattan fyrir tæpum tveimur árum. Hann segir þó að fyrirtækið stefni að opnun nokkurra búða í Evrópu á næstunni og að útrás Íslendinga í Danmörku sé síður en svo búin, en félagið hefur nú opnað verslun þar eins og kom fram í Viðskiptablaðinu í síðustu viku. "Það eru spennandi tímar framundan hjá 66°Norður, bæði hér heima og erlendis," segir Halldór. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins er áætluð velta félagsins á þessu ári um tveir milljarðar króna.