Útrás fataframleiðandans 66°Norður heldur áfram en á laugardaginn opnar verslun í Osló en þetta er fyrsta 66°Norður verslunin í Noregi. 66°Norður hefur vaxið hratt undanfarin ár með aukinni framleiðslu og sölu á fjölbreyttum fatnaði til útivistar. Vörur undir merki 66°Norður fást nú í yfir 300 verslunum í alls 16 löndum.

66°Norður verslunin í Osló er staðsett í hinni vinsælu Aker Brygge verslunarmiðstöð í hjarta norsku höfuðborgarinnar. Rúmlega fimm milljónir manna heimsækja verslunarmiðstöðina árlega þ.á.m. fjöldi ferðamanna sem sækja Osló heim. Verslunin er rúmlega 70 fermetrar að stærð og fallega hönnuð í anda annarra verslana fyrirtækisins víða um heim.

Opnun verslunarinnar í Osló er ein af mörgum sem 66°Norður stendur fyrir á nýjum mörkuðum. Margt spennandi er í farvatninu hjá fyrirtækinu á alþjóðavettvangi enda mikil eftirspurn eftir vörumerkinu erlendis. Rekstraraðili verslunar 66°Norður í Noregi er fyrirtækið Red Mule Invest.

,,Það er alltaf spennandi að opna nýja verslun og ekki síst í útlöndum. Þetta er fyrsta verslunin undir merkjum 66°Norður í Noregi og við bindum miklar vonir við gott gengi þar í landi,” segir Halldór G. Eyjólfsson, forstjóri 66°Norður. ,,Ég er afar stoltur og ánægður með þann árangur sem 66°Norður hefur náð og sérstaklega í því efnahagástandi sem ríkir hér á landi. Það er mikilvægt að halda hjólunum gangandi á svona tímum og það hefur okkur tekist. Það er vissulega ánægjulegt fyrir fyrirtækið að geta státað sig af því að vera í útrás um þessar mundir,” segir Halldór ennfremur.