Í október síðastliðnum nam heildargreiðslukortavelta erlendra ferðamanna 17,5 milljörðum króna, sem er 67,1% hærri upphæð en í október í fyrra.

Þetta er eitt af því sem fram kemur í smásöluvísitölu Rannsóknarseturs verslunarinnar , þar sem tekin er saman söluvelta í verslunum landsins, en eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í morgun dróst velta í fata- og skóverslun saman í október þrátt fyrir 5,9% lægra fataverð.

Fimmtungsaukning í húsgagnasölu

Sala í dagvöruverslun jókst milli áranna, eða um 4,3% frá því í október í fyrra. Ef horft er til síðustu þriggja mánaða var salan 7,3% meiri en á sama tímabili í fyrra.

Í mánuðinum jókst sala húsgagna um 19,2% frá sama mánuði í fyrra en þar af jókst velta sérverslana með rúm um 23,5% frá í fyrra. Ef horft er til síðustu þriggja mánaða jókst veltan um 26% milli ára.

Jafnframt jókst salan á stórum heimilistækjum milli áranna, en sala á kæliskápum og þvottavélum jókst um 13,5% frá því í október í fyrra.