Stefnt er að nýframkvæmdum við hafnarmannvirki hérlendis upp á ríflega 67 milljarða króna fram til ársins 2031, líkt og kemur fram í Fiskifréttum . Langstærsti hluti þessara áætluðu framkvæmda er vegna nýrra viðlegukanta eða um 27 milljarðar, um 15 milljarðar eru áætlaðir í fjárfestingar á viðbótar raftengibúnaði vegna orkuskipta og um 10 milljarðar í landfyllingar fyrir ný hafnarsvæði.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Hafnasambands Íslands um framkvæmda- og viðhaldsþörf íslenskra hafna á komandi árum. Jafnframt segir í skýrslunni að viðhaldsþörf hafna innan hafnasambandsins sé áætluð um 12 milljarðar fram til ársins 2025. Stærsti viðhaldsþátturinn þar er endurnýjun og endurbætur á stálþiljum upp á nær fimm milljarða.

Á árunum 2016-2020 voru í heildina um 24,6 milljarða fjárfestingar í nýframkvæmdum í höfnum landsins. Þar af var hlutur hafnarsjóða um 19,5 milljarðar en hlutur ríkisins um fimm milljarðar að frátöldum ríkisreknum höfnum.

Stóraukin rafvæðing á hafnarsvæðum er stór kostnaðarliður í framkvæmdum hafnarsjóða á næstu árum. Sem dæmi má nefna að Hafnasamlag Norðurlands gerir ráð fyrir 3,9 milljarða fjárfestingu í rafbúnað á næstu tíu árum, allt frá 1,5-2 MW tengingum upp í 8-12 MW. Vestmannaeyjahöfn gerir einnig ráð fyrir 3,9 milljarða í rafbúnað vegna orkuskipta á næstu 10 árum og Faxaflóahafnir ætla að fjárfesta í nýjum rafbúnaði vegna orkuskipta uppá liðlega 3,1 milljarða. Hafnarfjarðarhöfn gerir ráð fyrir um einum milljarði í rafbúnað vegna orkuskipta þar sem orkuviðbótin verður um 4,4 MW.