Alls starfa 57% af mannafla Íslands við þjónustu hverskonar, um 90.000 manns, og um 67% tekna þjóðarbúsins er af þjónustugreinum og verslun.

Þjónustan ein nemur um 55% af landsframleiðslunni og hefur hlutdeild hennar aukist um 14% á 30 árum, að því er fram kom í máli Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra, á aðalfundi Samtaka verslunar og þjónustu fyrr í dag.

Útflutningstekjur þjónustu 120 milljarðar

Björgvin sagði þörf á að byggja undir þessar greinar með sama hætti og gert hefur verið um gömlu hefðbundnu greinarnar og sjá til þess að þær vaxi áfram og dafni.

„Aukin áhersla á frjáls viðskipti með vörur og þjónustu á milli landa hefur eflt samkeppnina á mörgum sviðum. Í því samhengi má nefna að talið er að vægi þjónustu í útflutningi gæti numið allt að 50% eftir tíu ár,” sagði Björgvin. „Þá verður þjónustan sífellt mikilvægari í utanríkisviðskiptum og nam útflutningur þjónustu 12% árið 2005 og tekjur vegna þjónustuútflutnings voru 120 milljarðar sama ár eða tæp 30% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar.”