*

fimmtudagur, 23. janúar 2020
Innlent 25. júlí 2019 09:29

670 hótelherbergi bætast við til áramóta

Frá byrjun sumars til áramóta munu 520 hótelherbergi bætast við í borginni auk nýs Marriot hótels við Leifsstöð.

Ritstjórn
Stór hluti hótelherbergjanna og hótelíbúðanna verður á eða við hina gömlu verslunargötu Laugaveginn í Reykjavík.
Haraldur Guðjónsson

Frá síðasta mánuði til áramóta munum að minnsta kosti 520 hótelherbergi bætast við á sjö hótelum í Reykjavík að því er Morgunblaðið greinir frá, en stærsta hótel borgarinnar, Fosshótel á Höfðatorgi er með 320 herbergi. Til viðbótar bætast við 150 herbergi á hóteli Marriot við Leifsstöð, svo samanlagt eru herbergin sem bætast við 670 á þessu svæði.

Auk þess eru að bætast við 51 hótelíbúðir í miðbænum, en allar þessar framkvæmdir hófust áður en kom að falli Wow air. Fyrsta hótelið bættist við fyrir um mánuði þegar 38 herbergi bættust við á Vegamótastíg, en þau eru hluti af hótelinu Room with a view á Laugavegi, en í júní bættist einnig við Oddson hótelið á Grensásvegi, með 77 hótelherbergjum.

Um mánaðarmótin verður sjöunda CenterHotelið opnað á Laugavegi, við gatnamót Snorrabrautar, með 102 herbergjum, en einnig bætti keðjan við sig 54 herbergjum á Hótel Plaza í byrjun sumar. Áttunda hótelið í keðjunni mun svo opna á Héðinsreitnum um áramótin, en þar verða til að byrja með 150 herbergi.

Um miðja vegu milli Snorrabrautar og Bankastrætis opnar svo Von Guldsmeden hótelið með 52 herbergjum í september. Handan við götuna bætast 16 hótelíbúðir sem Reykjavík Apartments er með við flóruna, en 35 slíkar íbúðir opnuðu í Bríetartúni í byrjun sumars. Loks eru áform um nýtt hótel milli Skipholts og Brautarholts með 44 herbergjum.

Stikkorð: Leifsstöð Hótel borgin