Scott Thompson, fyrrverandi stjórnarformaður Yahoo, tók árið 2012 ákvörðun um að selja 20% hlut sem fyrirtækið átti í Alibaba. Kínverska fyrirtækið var þá metið á 30 milljarða dollara eða 3.700 milljarða króna. Miðað við það má gera ráð fyrir að Yahoo hafi selt hlutinn á um það bil 6 milljarða dollara eða tæpar 750 milljarða króna.

Nú hefur Eric Jackson, stjórnarmaður í Yahoo, stigið fram að sagt að þessi ákvörðun Thompson hafi kostað fyrirtækið 54 milljarða dollara eða 6.700 milljarða króna. Alibaba, sem nýlega var skráð á markað, er í dag metið á 300 milljarða dollara eða ríflega 37.000 milljarða króna.

Yahoo er nú metið á 48 milljarða dollara eða tæpa 6.000 milljarða króna. Tuttugu prósenta hluturinn í Alibaba er því í dag verðmætari heldur Yahoo fyrirtækið í heild sinni.

Á þeim tíma sem Thompson tók þessa ákvörðun var hann undir töluverðum þrýstingi frá stórum hluthöfum að selja hlutinn í Alibaba. Fyrir tveimur árum var því alls enginn einhugur um að salan væri neitt svo slæm ákvörðun, þvert á móti. Miðað við stöðuna í dag leikur hins vegar enginn vafi á því að þetta var risastórt klúður.