Það sem af er ári hafa 674 fyrirtæki verið úrskurðuð gjaldþrota, um 5% fleiri en á sama tímabili í fyrra. Samanborið við árið 2008 nemur aukningin rúmlega 29% og er munurinn enn meiri ef litið er lengra aftur í tímann.

Greining Íslandsbanka fjallar um gjaldþrot fyrirtækja í dag í morgunkorni sínu en Hagstofan mun á föstudaginn birta nýskráningar og gjaldþrot fyrirtækja í október. Segir í morgunkorni að aukningin komi vart á óvart miðað við þau umskipti sem hafa orðið í efnahagslífinu.

„Gjaldþrot hafa verið tíðust í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð það sem af árinu. Þannig hafði ríflega fjórðungur allra fyrirtækja sem úrskurðuð hafa verið gjaldþrota á árinu starfað áður í þeirri atvinnugrein. Fast á hælana koma fyrirtæki í verslun og viðgerðum. Þar á eftir koma fyrirtæki í fasteignaviðskiptum og svo fyrirtæki í fjármála- og vátryggingarstarfsemi.  Þau fyrirtæki sem starfa í þessum geirum eru viðkvæmust fyrir sveiflum í innlendri eftirspurn og hafa af þeim sökum orðið illa úti í núverandi kreppu,“ segir í morgunkorni.