Framboð íbúða hefur minnkað um 68% frá því í maí 2020 og hefur minnkandi framboð dregið úr umsvifum á fasteignamarkaði, þó eftirspurn sé enn mikil. Þetta kemur fram í skýrslu frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun . Á höfuðborgarsvæðinu hefur íbúðum fækkað um 6% milli mánaða og 12% í nágrannasveitarfélögunum og annarsstaðar á landsbyggðinni. Þetta má sjá á myndinni hér að neðan sem tekin er úr skýrslu HMS. Á myndinni má sjá hve hratt framboð eigna hefur dregist saman á undanförnum 18 mánuðum í takt við aukna eftirspurn á íbúðamarkaði.

Framboð íbúða
Framboð íbúða

Barist um minni íbúðir

Aldrei hefur jafn hátt hlutfall af seldum íbúðum í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu verið yfir ásettu verði og í október síðastliðnum, eða um 37,8% íbúða. Sölutími íbúðanna var tæplega 37 dagar að meðaltali í sama mánuði og hefur aldrei mælst styttri.

Á höfuðborgarsvæðinu virðast litlar og ódýrar eignir vera heitustu bitarnir á markaðnum. 0-2 herbergja íbúðir eru um 17,5% allra íbúða en hlutfallið var nærri 29% í lok janúar. 40% minni íbúða seldust yfir ásettu verði í október, sem er hærra hlutfall en hjá stærri íbúðum. Jafnframt seldust 11% minni íbúða á yfir 5% meira en ásett verð, samanborið við 8,7% allra íbúða.

Í kjölfar vaxtahækkana Seðlabankans hafa bankarnir brugðist við með þeim hætti að hækka óverðtryggða og lækka verðtryggða vexti. Í skýrslunni segir að vaxandi munur á verðtryggðum og óverðtryggðum vöxtum gæti leitt til þess að það dragi úr ásókn í óverðtryggð lán á næstu misserum. Viðskiptablaðið greindi frá þessari þróun nýlega.