68,2% kjósenda Samfylkingarinnar segist vilja að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gegni formannsembætti í flokknum en 12,7% segjast styðja Jón Baldvin Hannibalsson. 19,1% segjast vilja hvorugt.

Þetta er niðurstaða könnunar MMR sem spurði: „„Kosningar um forystu Samfylkingarinnar fara fram á landsfundi flokksins dagana 27.-29. mars næstkomandi. Tveir aðilar hafa boðið sig fram til að gegna embætti formanns Samfylkingarinnar, þau Jón Baldvin Hannibalsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Hvort þeirra myndir þú heldur vilja að yrði formaður Samfylkingarinnar?“ Samtals tóku 89,0% afstöðu til spurningarinnar.

Þegar horft er til stuðningsmanna allra flokka minnkar stuðningur við Ingibjörgu Sólrúnu en eykst við Jón Baldvin. Þá segjast 35,1% heldur vilja Ingibjörgu Sólrúnu en 19% heldur vilja Jón Baldvín. 45,9% vildu hvorugt í formannssætið. Einungis meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins er stuðningurinn meiri við Jón Baldvin en Ingibjörgu Sólrúnu, eða 19,4% á móti 17,7%.

Könnunin var framkvæmd dagana 3.-5. mars og var heildarfjöldi svarenda 891 einstaklingur.