Verðbólga í Bandaríkjunum hækkaði um 0,8% á milli mánaða og mældist 6,8% í nóvember. Árshækkun vísitölu neysluverðs í Bandaríkjunum hefur ekki verið meiri frá árinu 1982 og hefur nú mælst yfir 5% sex mánuði í röð, líkt og kemur fram í grein WSJ .

Kjarnaverðbólga (e. core-price index), sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, mældist 4,9% í nóvember, samanborið við 4,6% í október. Kjarnaverðbólgan hefur ekki mælst meiri frá árinu 1991.

Verðhækkanir voru í flestum geirum. Matarverð hækkaði um 6,1% milli ára og verð á bílum, bæði nýjum og notuðum, um 31,4%. Orkuverð hefur hækkað um 33,3% milli ára og bensínverð um 58,1%.

Örvunaraðgerðir bandaríska ríkisins, lágir vextir Seðlabankans og flöskuhálsar í virðiskeðjum eru allt þættir sem spila inn í verðbólguna, líkt og kemur fram í frétt AP . Auk þess hefur skortur á vinnuafli vestanhafs leitt til launahækkana og í kjölfarið hafa fyrirtækin hækkað verð til að standa straum af hærri launakostnaði.

„Gríðarleg aukning einkaneyslu og mikil eftirspurn í hagkerfinu ofan á flöskuhálsa í virðiskeðjum hafa búið til ójafnvægi í framboði og eftirspurn,“ segir Aneta Markowska aðalhagfræðingur fjárfestingabankans Jefferies.

Seðlabanki Bandaríkjanna fundar í næstu viku, en líklegt þykir að bankinn muni draga hraðar úr skuldabréfakaupum sínum og hækka vexti ekki síðar en næsta vor.