Í októbermánuði voru fluttar út vörur fyrir 61,2 milljarða króna og inn fyrir 50,4 milljarða króna fob. Vöruskiptin í október, reiknuð á fob verðmæti, voru því hagstæð um 10,8 milljarða króna. Til samanburðar voru vöruskiptin í október á síðasta ári hagstæð um 8 milljarða króna. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu Íslands .

Fyrstu tíu mánuði ársins 2014 voru fluttar út vörur fyrir tæpa 488 milljarða króna en inn fyrir 494,9 milljarða króna fob. Vöruskiptin við útlönd voru því óhagstæð um 6,9 milljarða króna, reiknað á fob verðmæti, en á sama tíma árið áður voru þau hagstæð um 31,7 milljarða á gengi hvors árs. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 38,6 milljörðum króna lakari en á sama tíma árið áður.

Fyrstu tíu mánuði ársins 2014 var verðmæti vöruútflutnings 22 milljörðum eða 4,3% lægra á gengi hvors árs¹ en á sama tíma árið áður. Iðnaðarvörur voru 52,1% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 2,7% lægra en á sama tíma árið áður, aðallega vegna áls. Sjávarafurðir voru 41,5% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 10,7% lægra en á sama tíma árið áður. Á móti kom að aukning varð á sölu skipa og flugvéla.