Hafnarfjarðarbær er nú með í auglýsingu 69 lóðir í nýju og vistvænu íbúðarhverfi í Skarðshlíð. Í skipulagi og hönnun á svæðinu, sem liggur sunnan og vestan Ásfjalls og er um 10,35 ha að stærð, er áhersla lögð á heildræna sýn, vistvænt skipulag, grænt yfirbragð og fjölbreytt útisvæði að því er kemur fram í frétt á vef Hafnarfjarðarbæjar . 13 einbýlishúslóðir og 18 parhúsalóðir eru til úthlutunar og geta einungis einstaklingar sótt um þessar lóðir. Samhliða er óskað eftir tilboðum lögaðila í 26 tvíbýlishúsalóðir og 12 raðhúsalóðir.

Þar kemur einnig fram að eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði í Hafnarfirði hefur vaxið gríðarlega síðustu misseri og er nú svo komið að íbúar eru orðnir rúmlega 29.000 talsins. Breytingar á skipulagi í Hafnarfirði og uppbygging innviða hefur miðað að því að svara þessari auknu eftirspurn eftir húsnæði. Áfangi tvö í nýju íbúðarhverfi í Skarðshlíð hefur undirgengist töluverðar skipulagsbreytingar síðustu mánuði og eru 69 lóðir á svæðinu nú komnar í auglýsingu. Gert er ráð fyrir að lóðirnar verði tilbúnar til afhendingar  og framkvæmda síðla hausts 2017.

Dregið var úr fjölda einbýlishúsalóða í hverfinu og þess í stað fjölgað tvíbýli, þríbýli og fjórbýli. Íbúðum var þannig fjölgað úr 133 í 154 til að svara vaxandi þörf á markaði.