Dagana 2.-6. júní síðastliðna tók Neytendastofa átta íslenskar vefsíður sem bjóða þjónustu tengda farsímum til athugunar. Kannað var hvort vefsíðurnar eru í samræmi við ákvæði laga um óréttmæta viðskiptahætti,laga um rafræn viðskipti og laga um húsgöngu- og fjarsölusamninga.

Af þeim vefsíðum sem kannaðar voru uppfyllti aðeins ein skilyrði framangreindra laga varðandi sölu á farsímaþjónustu. Það var vefsíða Símans. Vefsíður í eigu d3 miðla, huga.is, Icon, Nova, Stjörnuspekistöðvarinnar, Tals og Vodafone uppfylltu hins vegar ekki ákvæði laganna um upplýsingar um seljanda.

Neytendastofa mun hafa samband við eigendur vefsíðanna og óska eftir lagfæringum. Þessi könnun Neytendastofu er liður í samvinnu stjórnvalda á EES-svæðinu um neytendavernd.