Alls hafa nú verið boraðar 7 borholur af væntanlegum 12 vegna nýrrar virkjunarinnar Hitaveitu Suðurnesja. Hitastig í jarðhitageymnum á Reykjanesi er á bilinu 290 til 320°C og reiknað er með 9 til 13 MW í rafafli frá hverri vinnsluholu. Inntaksþrýstingur þarf að vera mjög hár til þess að losna við útfellingar, en hann dregur úr nýtingu hverrar holu, enn um sinn að minnsta kosti.

Hér fylgja hér upplýsingar um holurnar:

Hola 10 Borun lauk í febrúar 1999 2.054 m. djúp
Hola 11 Borun lauk í maí 2002 2.248 m. djúp
Hola 12 Borun lauk í desember 2002 2.506 m. djúp
Hola 13 Borun lauk í apríl 2003 2.457 m. djúp
Hola 14 Borun lauk í janúar 2004 2.306 m. djúp
Hola 15 Borun lauk í mars 2004 2.507 m. djúp
Hola 16 Borun lauk í maí 2004 2.627 m. djúp

Föstudaginn 16. apríl sl. var síðan undirritaður á Brekkustíg 36 í Njarðvík samningur við Sumitomo / Fuji Heavy Industries um kaup á tveimur 50 MW raforkuhverflum. Samkvæmt samningnum verður fyrri vélin afhent 31. ágúst 2005 og sú síðari 30. september 2005. Vegna m.a. hins háa þrýstings, sem vélarnar verða reknar á, svo og efnainnihalds jarðvökvans, þá voru keyptar tvístreymisvélar, sem eru nokkru dýrari en einstreymisvélar, en minni gufuhraði minnkar hættu á sliti. Miðað við gengi á opnunardegi tilboða var samningsupphæðin um 1,7 milljarðar króna, og eru þá innifaldir varahlutir, sem sumir eru mjög dýrir, eins og t.d. vararotor (hverfilhjól).