Amaroq Minerals Ltd., auðlindafélag sem heldur á víðtækum rannsóknar- og vinnsluheimildum á Grænlandi, hefur gengið frá sjö milljarða króna lánsfjármögnun, en fjármagnið verður notað til að hefja gullvinnslu í Nalunaq námunni fyrr en ella. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Um sé að ræða heildarfjármögnun upp á rétt tæplega 49,5 milljónir Bandaríkjadala sem samanstandi af lánveitingu frá Landsbankanum og Fossum fjárfestingarbanka, auk breytanlegra lána frá nokkrum af núverandi hluthöfum s.s. ACAM LP, JLE Property Ltd, Livermore Partners og First Pecos.

Félagið hefur nú þegar fjárfest í búnaði fyrir gullvinnslu fyrir um 1,2 milljarð en áætlanir gera ráð fyrir kostnaði upp á 8 milljarða við þennan áfanga.

Í tilkynningu segir jafnframt að auk fyrrnefndrar fjármögnunar sitji félagið á um 5 milljörðum í reiðufé. „Þess ber einnig að geta að félagið stefnir á að uppfylla öll skilyrði fyrir sölu á 49% eignarhlut í dótturfélaginu Gardaq til GCAM LP. Búist er við að það skili félaginu um þremur milljörðum króna til viðbótar. Að öllu þessu samanlögðu mun félagið hafa aðgang að um 15 milljörðum króna,“ segir í tilkynningunni.

„Rannsóknarboranir á Nalunaq svæðinu hafa skilað afar góðum niðurstöðum og magn gulls verið að mælast um 28 grömm úr hverju tonni af bergi. Í sumar mun Amaroq undirbúa Nalunaq námuna fyrir gröft og gullvinnslu, en auk þess verður borað á sjö stöðum á Suður-Grænlandi í leit að kopar, nikkel, gulli og öðrum efnahagslega mikilvægum málmum.“

Þá hefur félagið til skoðunar að flytja sig af Nasdaq Iceland First North yfir á Aðalmarkað Nasdaq Iceland og hefur verið í viðræðum við Landsbankann og Fossa fjárfestingarbanka í þeirri vegferð. Nánari upplýsingar verði veittar þegar þær liggja fyrir.

Eldur Ólafsson forstjóri og einn af stofnendum Amaroq:

„Við erum mjög ánægð að hafa klárað þessa fjármögnun. Með þessu getur félagið hafið fullvinnslu á gulli á Grænlandi fyrr en áætlað var með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á sjóðstreymi þess. Félagið er einnig að skoða möguleika á því að nýta endurnýjanlega orku til að knýja námuvinnsluna. Það mun nýtast okkur til skamms tíma en samfélagið á Grænlandi mun njóta þess áfram til lengri tíma. Félagið er einnig að skoða sjálfvirknivæðingu vélaflotans í námunni sem og að minnka kostnað við birgðahald með því að setja upp þjónustufélag.

Við viljum þakka fjárfestum sem og lánveitendum það traust sem þeir sýna okkur og við hlökkum til að fá að segja markaðnum frá næstu skrefum.“