Á öðrum ársfjórðingi 2020 nam afgangur á viðskiptajöfnuði Íslands við útlönd 7 milljörðum króna, en á fyrsta ársfjórðungi nam afgangurinn 16,7 milljörðum króna, að því er fram kemur í samantekt Seðlabanka Íslands .

Á öðrum ársfjórðungi var hallinn á vöruskiptajöfnuðinum 9,2 milljarðar króna, en afgangurinn á þjónustujöfnuðinum nam 3,7 milljörðum króna. Til viðbótar skiluðu frumþáttatekjur 19,2 milljarða króna afgangi, en rekstrarframlögin 6,8 milljarða króna halla.

Á sama tíma fyrir ári var 43,4 milljarða króna halli á vöruskiptajöfnuðinum, meðan þjónustujöfnuðurinn var jákvæður um 52,2 milljarða, en jöfnuður frumþáttatekna var jákvæður um 14,4 milljarða en rekstraframlögin skiluðu 7 milljarða króna nettó halla.

Verð innlendra verðbréfa hækkaði umram erlend

Hrein staða við útlönd batnaði um 143 milljarða króna, eða 4,9% af vergri landsframleiðslu á öðrum ársfjórðungi og var hún jákvæð um 838 milljarða króna, eða 28,5% af vergri landsframleiðslu á fjórðungnum.

Erlend staða þjóðarbúsins batnaði um 22 milljarða króna á fjórðungnum vegna hreinna fjármagnsviðskipta, en erlendar eignir jukust um 83 milljarða króna vegna fjármagnsviðskipta og skuldir um 61 milljarð króna.

Virði eigna og skulda jókst nokkuð vegna gengis- og verðbreytinga á ársfjórðungnum, en í heildina leiddu þær til 137 milljarða króna hækkunar á hreinni erlendri stöðu þjóðarbúsins. Verð á erlendum verðbréfamörkuðum hækkaði um 18,8% og á innlendum hlutabréfamarkaði um tæp 20%. Gengi krónunnar stóð í stað gagnvart helstu gjaldmiðlum miðað við gengisskráningarvog.

50 milljörðum minni útflutningur þjónustu á borð við ferðaþjónustu

Viðskiptaafgangurinn var, eins og áður kom fram, 9,2 milljörðum króna minni en á sama ársfjórðungi árið áður. Það skýrist aðallega af óhagstæðari þjónustuviðskiptum um sem nemur 48,4 milljörðum króna.

Munar þar mest um umtalsvert lægra verðmæti útfluttrar þjónustu eða sem nemur 99 milljörðum króna, sem væntanlega má rekja til minni ferðaþjónustu. Á móti vegur að innflutt þjónusta minnkaði um 50,6 milljarða króna.

Vöruviðskipti voru hagstæðari sem nemur 34,3 milljörðum króna. Það skýrist að mestu af 47,9 milljörðum króna minni innflutningi miðað við árið á undan en útflutningur var 13,6 milljörðum króna minni. Frumþáttatekjur voru 4,7 milljörðum króna hagstæðari og halli rekstrarframlaga var lítillega minni eða um 0,2 milljarðar króna.