Icelandair tapaði 49,1 milljónum dala eða um 7 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi. Til samanburðar tapaði félagið 49,7 milljónum dala á sama fjórðungi í fyrra, eða um 7,1 milljörðum króna. Þetta kemur fram í nýbirtu ársfjórðungsuppgjöri félagsins.

Í tilkynningu frá félaginu segir að veðurtengdar raskanir í janúar og febrúar hafi haft neikvæð áhrif á afkomu fyrsta ársfjórðungs.

„Eldsneytisverð, veðurtengdar flugraskanir og verðbólga meiri áhrif á afkomu félagsins í fjórðungnum en búist var við. Til viðbótar var afkoman af fraktstarfsemi okkar undir væntingum vegna krefjandi markaðsaðstæðna og tafa í fraktflugáætlun. Horfur í fraktflutningum verða áfram krefjandi og munum við á næstunni leggja alla áherslu á að bæta afkomuna," var haft eftir Boga Nils Bogasyni forstjóra félagsins.

Tekjur flugfélagsins jukust um 47% frá fyrra ári og námu 233 milljónum dala, eða um 33 milljörðum króna. Farþegatekjur jukust um 66% og námu 171 milljónum dala.

Eiginfjárstaða Icelandair versnaði um 50 milljónir dala á milli ára og nam 226 milljónum dala í lok árs 2023.

Flugframboð í farþegaleiðakerfi Icelandair jókst um 38% á milli ára. 664 þúsund farþegar flugu með félaginu á tímabilinu, sem er 57% fleiri en á fyrsta ársfjórðungi í fyrra.

Þá var sætanýting tæp 78% samanborið við 67% á sama fjórðungi í fyrra. Er það besta sætanýting félagins í fyrsta ársfjórðungi frá árinu 2016. Bókanir Icelandair á næstu sex mánuðum eru jafnframt um 40% fleiri en á sama tíma í fyrra.

Vetraráætlun Icelandair 2023-2024 verður sú umfangsmesta í sögu félagsins. Áfangastaðir verða 36 talsins og nemur aukning á áætluðu sætaframboði á tímabilinu nóvember til febrúar 20-25% í samanburði við vetraráætlun 2022-2023.

Tíðni til fjölda áfangastaða hefur verið aukin og fimm áfangastaðir sem flogið hefur verið til hluta úr ári verða nú heilsársáfangastaðir.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:

„Horfur fyrir árið í heild eru góðar þrátt fyrir áframhaldandi verðbólgu og ýmsar áskoranir í rekstrarumhverfinu. Flugáætlun okkar í sumar er sú stærsta í sögu félagsins með 54 áfangastöðum og þar af fjórum nýjum. Eftirspurn eftir ferðalögum er mjög mikil og bókunarstaða næstu sex mánuði er mun betri en á sama tíma í fyrra.

Til lengri tíma litið, þá erum við í góðri stöðu til að nýta tækifærin sem framundan eru með öflugt leiðakerfi sem byggt er á einstakri staðsetningu Íslands, yfirgripsmikla innviði sem við höfum byggt upp síðustu áratugi og sterka fjárhagsstöðu. Til að styðja við framtíðarvöxt félagsins höfum við tekið ákvörðun um að fjárfesta í Airbus flugvélum af gerðinni A321XLR. Þessar vélar munu ekki einungis gera okkur kleift að þróa viðskiptalíkan félagsins enn frekar í flugi yfir Atlantshafið heldur einnig sækja á nýja og spennandi markaði í framtíðinni.”