Nasdaq hefur ákveðið að stækka bótasjóðinn vegna skráningar Facebook á markað í Bandaríkjunum fyrr á þessu ári. Eftir þessa ákvörðun nemur bótasjóðurinn um 62 milljónum dollara, sem samsvarar rúmlega 7,7 milljörðum íslenskra króna. Þetta kemur fram í frétt á vef Financial Times.

Þetta er gert þar sem skráning Facebook á markað, og mistök í kringum skráninguna, hafa kostað aðila á markaði stórar fjárhæðir. Skráningin og vandamálin í kringum hana hafa valdið því að fleiri aðilar hafa höfðað mál gegn Nasdaq.

Áður var búið að ákveða að bótasjóðurinn myndi nema um 5 milljörðum íslenskra króna. Þar að auki átti hluti af honum að koma til greiðslu í gegnum niðurgreiðslur á framtíðar viðskiptum. Umræddar niðurgreiðslur hafa þó verið gagnrýndar á þeim grundvelli að þær geti verið samkeppnishamlandi. Því verða bætur eingöngu greiddar út með beinum hætti.

Þessi nýja áætlun Nasdaq var formlega lögð fram á föstudaginn og hafa markaðsaðilar viku til að skila inn gögnum til að geta átt rétt á bótum úr sjóðnum.