Verðbólga í Bandaríkjunum mældist 7% í desember, en árshækkun vísitölu neysluverðs í Bandaríkjunum hefur ekki verið meiri síðan í júnímánuði árið 1982. Verðbólgan hefur nú mælst yfir 6% þrjá mánuði í röð, líkt og kemur fram í grein Wall Street Journal.

Kjarnaverðbólga (e. core-price index), sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, mældist 5,5% í desember, samanborið við 4,9% í nóvember. Kjarnaverðbólgan hefur ekki mælst meiri síðan í febrúarmánuði árið 1991.

Verðhækkanir voru í flestum geirum og hækkaði matarverð til að mynda um 6,3% milli ára. Húsnæðiskostnaður hækkaði um rúm 4%, orkuverð um 29,3% og bensínverð um tæp 50%. Fatnaður hækkaði auk þess um 5,8% milli ára.

Nýir bílar hækkuðu um tæp 12% milli ára og notaðir bílar um 37,3%, en mikill skortur á hálfleiðurum hjá helstu bílaframleiðundum hefur hægt á framleiðslu nýrra bíla. Því hefur eftirspurn aukist gríðarlega eftir notuðum bílum sem skýrir að einhverju leyti þessa 37% hækkun.

Sarah House, aðalhagfræðingur Wells Fargo, segir að enn sé mikill skortur í hagkerfinu. Neytendur séu tilbúnir að borga meira fyrir vörur og þjónustu og fyrirtæki tilbúin að greiða hærri laun. Atvinnuþátttaka hefur ekki ennþá tekið við sér í kjölfar faraldursins þrátt fyrir nokkuð lágt atvinnuleysi upp á 3,9% í desember. Sérfræðingar segja að skortur á vinnuafli vestanhafs hafi leitt til launahækkana og í kjölfarið hafi fyrirtækin farið í verðhækkanir til að standa straum af hærri launakostnaði.

Sjá einnig: Verðbólgan ógni vinnumarkaði

Jay Powell, seðlabankastjóri, bar vitni fyrir bankamálanefnd Öldungadeildar Bandaríkjaþings í gær og sagði að bankinn hyggðist ljúka skuldabréfakaupum sínum í mars á þessu ári og hefja vaxtahækkunarferli. Greiningaraðilar spá ýmist þremur eða fjórum vaxtahækkunum á árinu.