Gistiheimili, hótel og aðrar stofnanir og fyrirtæki sem bjóða upp á gistingu fyrir ferðamenn á Suðurnesjum hafa á þremur árum tvöfaldast í fjölda. Árið 2013 voru þau 35 talsins en nú eru þau 70. Frá þessu er sagt á fréttavef Túrista.is .

Augljóst er að gífurleg þróun hefur orðið á framboði gistipláss á Suðurnesjum, en árið 2004 voru gististaðir þar aðeins sjö talsins. Á tólf átum hafa þeir því tífaldast. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í síðustu viku greindi Skúli Mogensen frá því að WOW air hygðist stofna hótel á gamla varnarliðssvæðinu.

Atvinnumarkaðurinn á Suðurnesjum hefur snarbreyst í takt við uppgang ferðamannaiðnaðarins. Veitingastaðir og önnur þjónusta hefur einnig sprottið upp hratt, og atvinnuleysi mælist nú aðeins 3% - en sagt er að í raun fái allir þeir sem vilja atvinnu.