Sjö af hverjum tíu bókum sem koma út hér á landi í ár eru prentaðar hérlendis. Tvær af hverjum tíu bókum eru prentaðar í Asíu og tíunda hver bók í Evrópu. Þetta kemur fram í könnun Bókasambands Íslands sem RÚV greinir frá.

Bókasamband Íslands kannaði hvar einstakir titlar, sem nefndir eru í Bókatíðindum Félags íslenskra bókaútgefenda, eru prentaðir. Þeim titlum sem eru prentaðir hérlendis hefur fækkað um þrjú prósentustig frá í fyrra. Mest er um að skáldverk séu prentuð hérlendis, 86 prósent, en minnst um að barnabækur sé prentaðar hér, 43 prósent.