Ákvörðun ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks mun að líkindum kosta Reykjanesbæ 40 milljónir króna. Það er vegna þess að 70 manns sem hafa verið atvinnulausir í meira en tvö og hálft ár munu missa rétt til atvinnuleysisbóta og þannig geta sótt um fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélaginu.

Áætlað er að aðgerðin hafi áhrif á 500 manns á landinu öllu og spari ríkissjóði um einn milljarð króna. Á móti kemur áætlaður kostnaðarauki sveitarfélaga vegna fjárhagsaðstoðar sem verði 500 milljónir króna. Samkvæmt því ætti að sparast hálfur milljarður króna á ári úr opinberum sjóðum.

Bjartsýnn á að margir fái vinnu

„Núna um áramótin þá eru um 25 einstaklingar sem detta út af atvinnuleysisskránni og við gerum ráð fyrir að fá hluta af þeim hingað til okkar í fjárhagsaðstoð. Síðan á næstu 6 mánuðum vitum við um rúmlega 40 einstaklinga sem eiga að detta út af atvinnuleysisbótum, en það er ómögulegt að segja til um hversu margir komi hingað í fjárhagsaðstoð hjá okkur. Við erum að áætla að kostnaðurinn verði 20-40 milljónir á næsta ári til viðbótar við það sem fyrir er,“ segir Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri í Reykjanesbæ í samtali við fréttastofu RÚV.

Kjartan er þó bjartsýnn á að hluti þessa fólks fái vinnu þrátt fyrir að hafa ekki borið árangur sem erfiði eftir virka atvinnuleit í meira en tvö og hálft ár. Hann kallar jafnframt eftir meira samráði ríkis og sveitarfélaga þegar kemur að málefnum sem varða hagsmuni sveitarfélaga.