ESA, eftirlitsstofnun EFTA, hefur í tvígang sent innviðaráðuneytinu bréf þar sem óskað er eftir rökstuðningi á reikningsskilum Reykjavíkurborgar sem kunna að vera í trássi við alþjóðlega reikningsskilastaðla. Hingað til hafa Félagsbústaðir, dótturfélag borgarinnar, metið fasteignir sínar á gangvirði fremur en kostnaðarverði. Neyðist félagið til að breyta um matsaðferð gæti það leitt til hátt í 70 milljarða króna niðurfærslu á virði fasteignasafnsins.

ESA sendi ráðuneytinu, sem hét þá samgöngu og sveitarstjórnarráðuneytið, fyrst bréf vegna málsins í október og lagði fram níu spurningar. Þar spyr stofnunin m.a. hvort ráðuneytið telji að hugtakið „fjárfestingareignir“ eigi við um fasteignir sem notaðar eru undir félagslegt húsnæði.

Ráðuneytið segir í svari sínu, dagsettu 17. desember 2021, að Félagsbústöðum beri að fylgja alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við samningu ársreiknings þar sem skuldabréf félagsins eru skráð á markað. Ekki er tekið sérstaklega fram af hverju ríkið telji rétt að nota hugtakið „fjárfestingareign“ fyrir félagslegt húsnæði. Í svari við annarri spurningu ESA segir ráðuneytið þó að fasteignir í eigu Félagsbústaða væru ekki taldar fasteignir sem eigandi nýtir (e. owner-occupied property) samanber skilgreiningu IAS 40 staðalsins þar sem þær afli leigutekna.

Í lögum um ársreikninga er fjárfestingarfasteign skilgreind sem „fasteign, land, bygging eða hluti byggingar, sem ætluð er til öflunar tekna, svo sem til útleigu eða í öðru ágóðaskyni, en ekki til notkunar í rekstri félags við framleiðslu, vörslu vörubirgða, þjónustu í rekstri félagsins, í stjórnunarlegum tilgangi eða til sölu í hefðbundnum rekstrartilgangi“. Ráðuneytið bendir á að Reikningsskilaráð hafi úrskurðað í júlí 2020 að enginn efnislegur munur væri á framangreindri skilgreiningu og skilgreiningu samkvæmt IAS 40 staðlinum.

Ekki fylgt túlkun Alþjóðareikningsskilaráðs

ESA sendi ráðuneytinu annað bréf vegna málsins í byrjun febrúar og bendir á að ráðuneytið hafi, í svari sínu við fyrra bréfinu, staðfest að túlkun hugtaksins „fjárfestingarfasteign“ í lögum um ársreikninga sé í samræmi við skilgreiningu alþjóðlegra reikningsskilastaðla. Í þessu samhengi bendir eftirlitsstofnunin á notkun alþjóðlegra reikningsskilastaðla feli í sér „síðari breytingar á þessum stöðlum og tengdar túlkanir, framtíðarstaðla og tengdar túlkanir gefnar út eða samþykktar af Alþjóðareikningsskilaráðinu (IASB)“.

Jafnframt segist ESA vilja vekja athygli ríkisstjórnarinnar á túlkun IASB á fjárfestingareign samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastaðli fyrir opinbera aðila  („IPSAS“), nánar tiltekið IPSAS 16 staðalinn, sem er sögð byggð á efni IAS 40 staðlsins. Þar sé það beinlínis tekið fram að eignir sem notaðar eru undir félagslegt húsnæði, en sem einnig skapa tekjur, þrátt fyrir að leiga sé undir markaðsvirði, séu talin dæmi um eignir sem falli utan skilgreiningar á „fjárfestingareign“. Málsgrein 13 í IPSAS 16 sem vísað er í var síðast uppfærð árið 2010. Í henni er tekið fram að slíkar eignir skuli vera bókfærðar í samræmi við IPSAS 17 staðalinn sem kveður á um eignir séu metnar kostnaðarverði. Eftirlitsstofnunin gaf innviðaráðuneytinu frest til 4. mars að svara fyrirspurninni.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Jón Daníelsson hagfræðiprófessor segir seðlabanka heimsins hafa gert mikil mistök í viðbrögðum sínum við Covid kreppunni.
  • Ríkari kröfur verða gerðar til liðarins skýrslu stjórnar í ársreikningum af ársreikningaskrá.
  • Frekari umfjöllun um úthlutanir styrktarsjóðs Sonju de Zorrilla, Sonja Foundation.
  • Ársreikningur eins stærsta fjárfestingafélags landsins er krufinn til mergjar.
  • Hörður Arnarson, forstjóri Landsvrkjunar, er tekinn tali.
  • Móðurfélag nokkurra verslana sem selja húsgögn og húsbúnaði hagnaðist ríkulega á síðasta rekstrarári.
  • Anna Fríða Gísladóttir, nýr forstöðumaður markaðsmála hjá Play, ræðir nýja starfið og sín fjölmörgu áhugamál.
  • Fjölmiðlarýnir fjallar um LED-væðingu Reykjavíkur án útboðs og hvort hernaðaraðgerðir Rússa kalli á hærri vaxtabætur.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs sem fjallar um Justin Trudeau og innistæðulausar glansmyndir.
  • Óðinn skrifar um gjaldþrot Vaðlaheiðarganga.