Tólf fyrirtæki með um 600 starfsmenn á Íslandi framleiða tölvuleiki og er ársvelta þeirra um 10 milljarðar króna. Þetta kom fram í máli Ólafs Andra Ragnarssonar, einn stofnenda hugbúnaðarfyrirtækisins Betware, á menntadegi iðnaðarins. Viðskiptablaðið útnefndi Betware frumkvöðul ársins 2010.Fjallað er um málið á vef Samtaka atvinnulífsins .

Segir að leikaframleiðendur hér á landi stefni hátt og benda á að ef rétt verður að málum staðið megi ná því markmiði árið 2021 að starfsmenn í íslenskum leikjaiðnaði verði um fimm þúsund og skapi um 70 milljarða króna útflutningsverðmæti. Ólafur Andri segir þó að til að ná þessu háleita markmiði þurfi rétt skilyrði og nefnir þar fyrst efnahagslegan stöðugleika.

Úr frétt SA:

„En það þarf fleira að koma til að mati Ólafs til að byggja upp öflugan töluvleikjaiðnað á Íslandi, m.a. stuðningur við sprotafyrirtæki og gott samfélag. Hann segir tölvuleikjaframleiðendur á Íslandi þurfi ekki að hafa áhyggjur af fjarlægð við markaði en þeir verði  að eiga aðgang að vel menntuðu fólki til starfa.

Háskólinn í Reykjavík  býður upp á svokallaða leikjalínu í tölvunarfræðum þar sem er lögð áhersla á fög sem tengjast leikjum og leikjagerð. Ólafur segir að nýta megi betur þann kraft og tíma sem fólk ver í að spila tölvuleiki m.a. til ýmis konar náms. Í erindi hans kom fram að þeir sem eru 21 árs í dag eru að jafnaði búnir að eyða um 10 þúsund klukkustundum í tölvuleiki - jafnlöngum tíma og í grunnskóla. Einnig nefndi Ólafur þá merku staðreynd að mannkynið hafi eytt 5,93 miljónum ára í að spila leikinn World of Warcraft sem er jafnlangur tími og það tók mannkynið að þróast frá apa yfir í þá tegund sem nú gengur um á jörðinni.

En á að taka tölvuleiki alvarlega? Já klárlega segja Samtök leikjaframleiðenda á Íslandi (IGI) og benda á að í hverri viku verji fólk um 3 milljörðum klukkustunda í tölvuleiki,  100 milljónir manna spili alls konar tölvuleiki og þeim fari hratt fjölgandi.

Hærri skattar skaðlegir

Ólafur bendir á að Ísland er í samkeppni um fólk á alþjóðamarkaði og því þurfum við að geta laðað gott fólk erlendis frá til að byggja upp öflugt atvinnulíf. Hann segir erlend ríki veita leikjafyrirtækjum sérstaka skattaafslætti og því sé  erfitt að keppa við þau, sérstaklega þar sem skattar fari hækkandi á Íslandi og komi mjög hart niður á fyrirtækjum þar sem launakostnaður er hlutfallslega hár.“