Arion banki stefnir á að greiða hluthöfum út umfram eigið fé upp á um 50 milljarða króna á næstu árum til viðbótar við 17,8 milljarða króna endurkaup og arðgreiðslur sem farið var í á fyrri hluta þessa árs. Bankinn hóf ný fjögurra milljarða króna endurkaup hlutabréfa í vikunni. Auk þess hefur bankinn sett sér stefnu um að greiða helming af hagnaði hvers árs í arð.

Þá bíður sala félagsins á Valitor til Rapyd, upp á um 12 milljarða króna, samþykkis eftirlitsaðila. Bankinn áætlar að það skili bókfærðum hagnaði upp á um 3,5 milljarða króna og auki umfram eigið fé bankans um 9 milljarða króna. Með því kunni eiginfjárhlutfall bankans að hækka úr 27,2% í 28,6% en bankinn stefnir af því að eiginfjárhlutfallið verði nær 22%.

Arðsemin mest hjá Arion

Arion banki hefur að undanförnu skilað bestu afkomu stóru viðskiptabankanna þriggja eftir erfið ár þar á undan. Arðsemi eigin fjár Arion banka nam um 16% á síðasta fjórðungi, sem er það mesta í sex ár. Hagnaður bankans nam 23,6 milljörðum króna síðustu tólf mánuði samanborið við 730 milljóna króna hagnað tólf mánuði þar á undan.

Bönkunum hefur heilt yfir gengið erfiðlega að ná arðsemismarkmiðum sínum síðustu ár. Landsbankinn væntir um 7-9% arðsemi á þessu ári en bankinn hefur sett sér markmið um yfir 10% arðsemi, sem hann náði síðast árið 2015. Þá hefur Íslandsbanki ekki náð 10% arðsemi frá árinu 2016, en bankinn hefur sett sér markmið um 8-10% arðsemi eigin fjár fram til ársins 2023 og yfir 10% til lengri tíma litið.

Stefnubreyting sem Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, boðaði þegar hann tók við störfum árið 2019 virðist vera að ganga eftir. Benedikt benti á það þegar hann tók við að eigið fé hefði safnast upp í bönkunum sem ekki hefði verið greitt út. Það fé hefði verið nýtt til að fjármagna útlánavöxt sem hefði ekki skilað nægjanlegum arði. Arion banki ætti ekki að stefna að því að vera stærsti bankinn og verðleggja þyrfti áhættuna rétt. Á þeim tímapunkti hafði bankinn nýlega tapað töluverðum fjárhæðum á lánum til United Silicon, Primera og Wow air, sem öll höfðu farið í þrot.

Nokkrum mánuðum síðar, haustið 2019, var um hundrað starfsmönnum Arion banka sagt upp störfum til að hagræða í rekstrinum. Það var stærsta hópuppsögnin í langri hagræðingarsögu innan bankakerfisins frá hruni. Stöðugildum innan móðurfélagsins Arion banka fækkaði um 23% á árunum 2018 til 2020 úr 844 í 648. Á sama tímabili fækkaði stöðugildum innan Landsbankans um 12% úr 997 í 878 og hjá Íslandsbanka um ríflega 13% úr 861 í 745.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .