Hagnaður Eimskipafélag Íslands á fyrsta ársfjórðungi 2005 nam 70 milljónum króna samanborið við 45 milljóna króna tap á sama tímabili 2004, eða afkomubati að fjárhæð 115 milljónir króna. Hagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) er 103 milljónir króna og hefur fyrsti ársfjórðungur ekki verið gerður upp með hagnaði síðustu árin.

Viðsnúningur úr tapi í hagnað á fyrsta ársfjórðungi á sér stað milli ára þrátt fyrir um 200 milljóna króna gjaldfærslu í rekstrarreikningi vegna beins og óbeins kostnaðar samfara því að Dettifoss varð fyrir tjóni og fór úr rekstri í rúman mánuð. Að teknu tilliti til gjaldfærslu í tengslum við Dettifoss er reksturinn að skila verulega betri afkomu en í fyrra og eru skýringarnar þær umbreytingar sem farið var í á síðasta ári, s.s. akstur innanlands í stað strandsiglinga, hagræðingar í stjórnskipulagi og aðrar aðgerðir sem hafa miðað að því að auka tekjur og draga úr kostnaði.

Hagnaður félagsins fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 481 milljón króna samanborið við 266 milljónir árið áður, eða aukning um 215 milljónir. EBITDA hagnaður nam 8% af veltu á árinu 2005 en var 5% af veltu árið á undan. Afskriftir voru 378 milljónir króna og var því hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) 103 milljónir króna. Fjármagnsliður í rekstrarreikningi var einungis neikvæður um 2 milljónir króna og er gengishagnaður langtímalána samstæðunnar að skýra að langmestu leyti svo lágan fjármagnskostnað. Skattar námu 31 milljón króna sem gefur því hagnað 70 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi. Veltufé frá rekstri nam 217 milljónum króna.