70% nýrra íbúðalána sem Arion banki veitir eru verðtryggð lán, samkvæmt nýjustu tölum en þær eru frá því í mars. Þetta segir Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi bankans. Hlutfall verðtryggðra lána mánuðina á undan hafði þó verið lægra og ómögulegt að spá fyrir um hvernig þróunin verður hér eftir. Fyrst eftir að bankarnir hófu að bjóða óverðtryggð lán tók mikill meirihluti þau lán en þessi þróun hefur verið að snúast við undanfarna mánuði.

Tilhneigingin hefur þó klárlega verið sú það sem af er ári að lántakendur sækja í auknum mæli í verðtryggð lán hjá Arion banka. Þessi staðreynd rímar ágætlega við niðurstöður skýrslu sem Reykjavík Economics gerði fyrir Íslandsbanka og ber titilinn Íbúðamarkaðurinn: Endurreisn eða bóla. Fjallað er um skýrsluna í Viðskiptablaðinu í dag en þar segir meðal annars að það sem af er árinu 2014 hafa um 40% lántakenda tekið verðtryggð lán til 40 ára. Hlutfallið var 37% á árinu 2013 en einungis rúmlega 26% á árinu 2012. „Þessi þróun gefur þá vísbendingu að fólk horfi fyrst og fremst til greiðslubyrði en ekki eignamyndunar,“ segir í Viðskiptablaðinu í dag.