Samkeppniseftirlitið kynnti í morgun skýrsluna “Endurreisn fyrirtækja 2012 – Aflaklær eða uppvakningar”. Meginniðurstaða skýrslunnar er að mjög hafi dregið úr yfirráðum bankanna á fyrirtækjum en mikil skuldsetning fyrirtækja sé áhyggjuefni. Þá telja rúmlega 70% stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins að dulin yfirráð banka yfir fyrirtækjum landsins sé vandamál.

Í kvöldfréttum RÚV var rætt við Höskuld Ólafsson bankastjóra Arion banka. Þar sagði Höskuldur það ekki óeðlilegt að fjármálastofnanir fylgist betur með skuldugum fyrirtækjum og ákvörðunum sem teknar eru í þeim nú en áður. Þegar fyrirtæki séu mikið skuldsett þá vilji bankar, sem verulegur hagsmunaaðili, hafa eitthvað um það að segja hverning rekstrartekjum sé ráðstafað.