Rúmlega 700 fjölskyldur og einstaklingar fengu afgreiddar umsóknir sínar um ráðgjöf hjá Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna á síðasta ári. Frá því að Ráðgjafarstofan hóf starfsemi sína hafa því tæplega 6.000 fjölskyldur fengið ráðgjöf vegna greiðsluerfiðleika. Fjölmargir hafa fengið ráðgjöf símleiðis, en símaráðgjöf er veigamikill þáttur í þjónustu Ráðgjafarstofu. Fræðsla og forvarnir skipuðu stórt hlutverk á árinu og er það sá þáttur starfseminnar sem mikill áhugi er á að efla enn frekar. Þetta kom fram á ársfundi Ráðgjafastofu heimilanna sem haldinn var í dag.

Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna hefur nú starfað í níu ár. Hún var formlega opnuð 23. febrúar 1996 og var til húsa að Lækjargötu 4 í Reykjavík. Frá árinu 1996 hefur margt breyst er tengist fjármálum heimilanna í landinu. Sem dæmi má nefna almennt neyslumynstur og ekki hvað síst aðgengi heimilanna að lánsfé. Árið 2004 var um margt viðburðarríkt hjá Ráðgjafarstofu sagði Ásta Sigrún Helgadóttir, forstöðumaður í ræðu sinni.

Á árinu voru gerðar kannanir á viðhorfi viðskiptavina til þjónustu Ráðgjafarstofu. Einnig var kannað viðhorf samstarfsaðila til þjónustu og tillagna Ráðgjafarstofunnar. Er skemmst frá því að segja að niðurstöðurnar voru mjög jákvæðar í garð Ráðgjafarstofu, en jafnframt komu fram margar áhugaverðar athugasemdir og hugmyndir.

"Við lestur ársskýrslunnar er mikilvægt að hafa í huga að allar tölulegar upplýsingar þarf að skoða í ljósi þess að hér er um að ræða þær fjölskyldur sem eru verst settar fjárhagslega og sýna einungis aðstæður þeirra sem leituðu sér ráðgjafar á árinu.

Það má heldur ekki gleyma margfeldisáhrifum, þ.e. að aðstoð við eina fjölskyldu eða einstakling er ekki aðeins mikilvæg henni heldur fleirum sem koma að málefnum hennar. Það er andlega og líkamlega krefjandi fyrir fólk að eiga í greiðsluerfiðleikum. Greiðsluerfiðleikar eru mikið alvörumál og kosta þjóðfélagið mikið. Starf ráðgjafans hjá Ráðgjafarstofu er erfitt en um leið gefandi þegar unnt er að veita hjálparhönd á erfiðum tímum.
Þegar litið er á helstu niðurstöður ársins varðandi félagslegar aðstæður viðskiptavina Ráðgjafarstofu þá er fjölmennasti einstaki hópurinn líkt og undanfarin ár einstæðar mæður. Áföll hafa mikil áhrif á getu fjölskyldna til að standa undir útgjöldum fjölskyldunnar og eru veikindi langalgengustu ástæður greiðsluerfiðleika. Staða einhleypra karla er einnig umhugsunarefni en þeim fer fjölgandi milli ára," sagði Ásta Sigrún Helgadóttir, forstöðumaður.