World Class hefur opnað 700 fermetra heilsuræktarstöð á 15. hæð í nýja turninum í Smáranum í Kópavogi. Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, opnaði stöðina formlega á laugardaginn. Í nýju heilsuræktarstöðinni er fullkominn tækjasalur og búningsherbergi með gufubaði. Með opnun stöðvarinnar hefur markmiði World Class frá því á síðasta ári verið náð, að opna fjórar nýjar heilsuræktarstöðvar World Class á höfuðborgarsvæðinu undir slagorðinu „skrefi nær þér“.

Í tilkynnigu vegna opnunarinnar segjast Björn Leifsson og Hafdís Jónsdóttir í World Class ánægjulegt að markmiði þeirra frá síðasta ári skuli vera náð, að opna fjórar nýjar heilsuræktarstöðvar í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur. „Markmið okkar hefur ávallt verið að bæta þjónustuna. Fólk í úthverfum Reykjavíkur og nágrannasveitarfélögum vill eiga greiðan aðgang að fyrsta flokks heilsuræktaraðstöðu og við viljum svara þeirri kröfu. Við eigum von á að Kópavogsbúar taki nýju stöðinni fagnandi. Tilkoma stöðvarinnar ætti að verða þeim hvatning sem vilja byrja að stunda heilsurækt við fullkomnustu aðstæður en stöðin er fullbúin nýjustu tækjum til heilsuræktar frá Life Fitness og Hammer Strength.“

Haft er eftir Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, við opnunina að bæjaryfirvöld reyni eftir megni að stuðla að íþróttaiðkun og heilsurækt. „Hjá World Class stefna menn líka hátt. Það hefur löngu sannast á öflugri starfsemi og nú ekki síður á því að fyrirtækið opnar líkamsræktarstöð á 15. hæð í turninum mikla í Kópavogi sem orðinn er nýtt kennileiti fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins.“

Við formlega opnun heilsuræktarstöðvar World Class í turninum tóku starfsmenn Fjölsmiðjunnar, Guðmundur Hrafnkelsson og Finnbogi Kristinsson, við 300.000 krónum úr höndum Hafdísar Jónsdóttur. Féð safnaðist í áheitahlaupi World Class og Landsbankans þar sem nokkrir landsþekktir einstaklingar þreyttu kapphlaup upp á 15. hæð turnsins.