Heildarhagnaður Tryggingamiðstöðvarinnar á fyrsta fjórðungi er 700 milljónir króna og hagnaður á hlut er 0,92 krónur. Þetta er umtalsverð aukning frá því í fyrra þegar hagnaðurinn nam 522 milljónum króna. Arðsemi eigin fjár er 26,0% eftir skatta en var 21,7% á fyrsta fjórðungi í fyrra.

Sigurður Viðarsson forstjóri TM segir í tilkynningu að aukinn hagnaður félagsins á milli ársfjórðunga skýrist það fyrst og fremst af mun betri afkomu af fjárfestingastarfsemi en áætlanir gerðu ráð fyrir. „Hagnaður af vátryggingastarfsemi dregst hins vegar saman en er í samræmi við áætlanir. Þrátt fyrir erfið skilyrði á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum á fjórðungnum var afkoma af fjárfestingum á tímabilinu mjög góð. Þessa góðu afkomu má að stærstum hluta rekja til jákvæðra gangvirðisbreytinga á hlutabréfum í eigu TM.  Engu að síður var afkoma flestra annarra eignaflokka jákvæð og í ágætu jafnvægi sem verður að teljast góður árangur í ljósi markaðsaðstæðna,“ segir Sigurður í tilkynningu.

Í afkomuspá IFS greiningar sem kom út í gær var því spáð að TM myndi skila 700 milljóna króna hagnaði.