Hópur ungra frumkvöðla mun kynna og selja vörur sínar á Vörumessu Ungra frumkvöðla – JA Iceland í Smáralind á morgun og á laugardaginn. Rúmlega 700 nemendur í 15 framhaldsskólum taka þátt í Vörumessunni.

Alls verða 161 hópar og fyrirtæki framhaldsskólanemenda, sem hafa lært að stofna fyrirtæki og vinna að frumkvöðla- eða nýsköpunarhugmynd sinni, á Vörumessunni sem er ætlað að vera þeim vettvangur til að sýna afrakstur sinn.

„Þetta er frábært tækifæri fyrir almenning til að skoða viðskiptahugmyndir unga fólksins og að styðja við fyrstu skref þeirra í viðskiptalífinu,“ segir í fréttatilkynningu.

Á morgun munu 73 fyrirtæki kynna og selja vörur sínar eftir að Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, opnar Vörumessuna formlega kl. 12:00. Á laugardaginn munu svo önnur 73 fyrirtæki kynna og selja vörur sínar.

Vörumessunni lýkur formlega kl. 17:30 á laugardaginn með verðlaunaafhendingu, en veitt verða verðlaun fyrir frumlegasta sölubásinn og öflugasta sölustarfið. Verðlaunin veita Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Halla Sigrún Mathiesen stjórnarformaður Ungra frumkvöðla – JA Iceland.

Það verða einnig Vörumessur í Vestfjarðarstofu á Ísafirði 27. mars og á Glerártorgi Akureyri 30. mars.

Skólarnir sem taka ‏þátt eru Borgarholtsskóli, Fjölbrautaskólinn við Ármúla, Fjölbrautaskólinn í Garðabæ, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra, Flensborgarskólinn í Hafnarfirði, Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum, Kvennaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn við Hamrahlíð, Menntaskólinn á Ásbrú, Menntaskólinn á Ísafirði, Menntaskólinn í Kópavogi, Menntaskólinn við Sund, Tækniskólinn, Verkmenntaskólinn á Akureyri og Verslunarskóli Íslands.

Dagskrá

Föstudagur 24. mars

11:00-18:00 Vörumessa Ungra frumkvöðla – fyrri hluti

12:00-12:30 Formleg setning Vörumessunnar af Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra

12:30-14:30 Dómnefnd metur hugmyndir

Laugardagur 25. mars

11:00-18:00 Vörumessa Ungra frumkvöðla – seinni hluti

13:30-15:30 Dómnefnd metur hugmyndir

17:30-18:00 Formleg lok Vörumessunnar