Tap Haga hf. fyrir skatta, að teknu tilliti til fjármagnsliða nam 818 milljónum kr., en fjármagnsliðir voru nettó neikvæðir um 826 millj. kr. Að teknu tilliti til reiknaðra skatta nam tap félagsins 708 millj. kr. á fyrstu 6 mánuðum ársins. Rekstrartekjur félagsins námu 28.866 millj. kr. en rekstrargjöld án afskrifta námu 28.252 milljónum króna.

Rekstrarhagnaður Haga fyrir afskriftir (EBITDA) var 614 millj. kr. Afskriftir námu 606 millj. kr. og hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta nam 8 millj. kr. á rekstrartímabilinu.

Heildareignir félagsins námu 37.118 millj. kr. í ágústlok 2005. Fastafjármunir námu samtals 23.710 millj. kr. og veltufjármunir námu 13.408 millj. kr. en þar af nema greiðslukortakröfur 2.365 millj. kr. Heildarskuldir félagsins námu 31.200 millj. kr., þar af námu langtímaskuldir 17.077 millj. kr. Eigið fé og víkjandi lán nam 5.918 millj. kr. Eiginfjárhlutfall að teknu tilliti til víkjandi láns var 15,9% í ágústlok 2005.

Veltufé frá rekstri var neikvætt á tímabilinu um 482 millj. kr. Handbært fé frá rekstri var neikvætt um 2.939 millj. kr. en mikil hækkun birgða og viðskiptakrafna hjá Skeljungi skýra að stórum hluta þessa neikvæðu stöðu.

"Hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir er langt undir væntingum stjórnenda félagsins. Gríðarlega hörð samkeppni ríkti á lágvöruenda matvörumarkaðarins nær allt rekstrartímabilið og er það helsta ástæðan fyrir lakari afkomu fyrirtækisins," segir í tilkynningu félagsins

Það er skoðun stjórnenda Haga að samkeppni verði áfram mikil á matvörumarkaði því mun félagið á næstu mánuðum leita allra leiða að auka hagkvæmni í rekstri með því að endurskoða innkaup og annan rekstrarkostnað. Síðari hluti ársins er að jafnaði betri í rekstri en sá fyrri. Í október sl. yfirtók Fasteignafélagið Stoðir hf. hluta af fasteignum Skeljungs hf. og bætir það efnahag félagsins nokkuð.

Fyrirtæki Haga eru eftirfarandi:
Bónus
Debenhams
Skeljungur
Hagkaup
Topshop
Orkan
10-11
Noron (Zara)
Aðföng
Útilíf
Stórkaup
Trenor (Topshop í Svíþjóð)
Bananar
Ferskar kjötvörur

Hjá félaginu starfa 2.800 manns.