71% Íslendinga verslar frekar í innlendri vefverslun en í erlendri vefverslun samkvæmt niðurstöðum Netverslunarpúlsins, en um er að ræða nýja rannsókn sem hefur verið keyrð vikulega frá því í mars 2021 á íslensku þjóðinni. SVÞ greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

„Þetta eru ánægjulegar fréttir og sýnir að Íslendingar kunna að meta íslenskar vefverslanir," segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, en Netverslunarpúslinn er samstarfsverkefni SVÞ og Prósentu.

Í tilkynningunni segir að ákveðið hafi verið á síðasta ári að setja á laggirnar markvissar og reglulegar kannanir til að fylgjast með og mæla stöðu og þróun Íslendinga þegar kemur að netverslun. Rannsóknarfyrirtækið Prósent sjái um reglulegar mælingar hér á Íslandi þar sem 200 svörum einstaklinga á aldrinum 18 ára og eldri sé safnað í hverjum mánuði. Mælitækið sé m.a. byggt á e-barometern (sænsk mæling á netverslun) og FDIH (dönsk mæling á netverslun). „Með þessari nálgun getum við einnig borið okkur saman við Norðurlöndin," er jafnframt haft eftir Andrési.

Könnun leiddi í ljós að um 50% Íslendinga versla frekar við erlenda vefverslun þar sem varan fékkst einungis þar en ekki í íslenskri netverslun. Dæmi um vörur sem Íslendingar keyptu erlendis voru t.d. föt og skór, íþrótta- og tómstundavörur og snyrtivörur.

Ungir versla oftar á netinu

Samkvæmt niðurstöðum könnunar versla Íslendingar á aldrinum 25 til 34 ára oftast á netinu eða um 48 sinnum á ári. Einnig nota Íslendingar oftar snjallsímann við kaupin í stað tölvu, en hlutfallið er þó mismunandi eftir markhópum.

Þá leiðir könnunin í ljós að Íslendingar kynnir sér vel vöruna áður en hún er keypt. Í ljós kom að um 61% kaupenda kynna sér vörurnar á einhvern hátt áður en þær eru keyptar, t.d. vörueiginleika, ber saman verð og les umsagnir.

„Þrátt fyrir mikla aukningu í netverslun á undanförnum misserum kemur í ljós að um 23% Íslendinga gera samt ráð fyrir að versla meira á netinu á næstu 12 mánuðum en áður,“  segir í tilkynningu SVÞ.

Kynna nánari niðurstöður á miðvikudag

Á miðvikudag mun Trausti Haraldsson, framkvæmdastjóri Prósents, fara yfir valdar niðurstöður úr þessum mælingum á fundi sem fram fer í Húsi atvinnulífsins frá 8.30 til 10. Mun hann m.a. kynna fyrir gestum möguleika á að fylgjast með þróun kauphegðunar Íslendinga í vefverslunum í gagnvirku mælaborði.