Heildarhagnaður HS Orku á fyrstu sex mánuðum ársins nam 715 m.kr., samanborið við 1.480 m.kr. tap á sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í nýjum árshlutareikningi fyrir fyrri helming ársins 2014.

Rekstrartekjur fyrirtækisins námu 3.582 milljónum og lækka örlítið frá sama tímabili í fyrra, eða um 8.m.kr. EBITDA er alls um 1.342 m.kr. á fyrri helmingi ársins 2014, samanborið við 1.294 m.kr. 2013. Eiginfjárhlutfall félagsins er 59,7% og stendur í stað milli ára.

Í tilkynningu frá HS Orku segir að fjármagnsliðir hafi töluverð áhrif á afkomu fyrirtækisins. Breyting á virði afleiða, þ.e. framtíðarvirði orkusölusamninga sem tengjast álverði, er neikvæð um 242 m.kr., en var neikvæð um 3.950 m.kr. á sama tímabili í fyrra. Á móti kemur 221 m.kr. gengishagnaður á árinu sem er talsvert lægra en í fyrra, en á fyrstu sex mánuðum 2013 nam gengishagnaður 1.126 m.kr.

Þá segir að megin ástæða fyrir lækkun tekna sé lækkun álverðs, en á móti komi að tekjur hafi aukist talsvert á smásölumarkaði.