Landsframleiðsla jókst að raungildi um 7,2% á árinu 2016 er nú 10% meiri en hún var árið 2008. Einkaneysla jókst um 6,9%, samneysla um 1,5% og fjárfesting jókst um 22,7%. Þetta kemur fram í frétt Hagstofu Íslands .

„Árlegur vöxtur einkaneyslu hefur ekki mælst meiri frá árinu 2005 en að árinu 2007 undanskildu hefur einkaneysla ekki mælst meiri að raungildi hér á landi,“ segir í fréttinni.

Útflutningur jókst um 11,1% á sama tíma og innflutningur jókst um 14,7% og dró utanríkisverslun úr hagvexti þrátt fyrir 158,8 milljarða króna afgang af vöru- og þjónustuviðskiptum á liðnu ári.

Útflutningur þjónustu nam 26,8% af landsframleiðslu á árinu 2016 og er þetta í fyrsta skipti frá því að gerð þjóðhagsreikninga hófst árið 1945 sem tekjur af útfluttri þjónustu mælast hærri en vöruútflutningur.

Fjárfesting stóreykst

Fjárfesting jókst um 22,7% í fyrra en árlegur vöxtur fjárfestingar hefur ekki mælst meiri frá árinu 2006. „Umtalsverð aukning var í fjárfestingu atvinnuveganna, eða 24,7% og sömuleiðis í íbúðafjárfestingu, eða 33,7%. Á sama tímabili jókst fjárfesting hins opinbera um 2,5%,“ segir í frétt Hagstofu Íslands.

Sem hlutfall af landsframleiðslu var samneysla 23,1% á liðnu ári sem er heldur lægra en undanfarin ár. Á árabilinu 2010 til 2015 var hlutfallið 24,3% að meðaltali en frá árinu 1996 hefur hlutfall samneyslu af landsframleiðslu verið 23,3% að meðaltali.