*

sunnudagur, 20. júní 2021
Innlent 22. desember 2019 14:05

72 milljarða velta möguleg

Formaður Samtaka leikjaframleiðenda segir að með réttum aðgerðum geti tölvuleikjaiðnaður orðið ein öflugasta útflutningsgrein landsins

Ástgeir Ólafsson
Vignir Guðmundsson, formaður samtaka leikjaframleiðenda.
Haraldur Guðjónsson

Í skýrslu um tölvuleikjaiðnaðinn sem unnin var fyrir Samtök leikjaframleiðenda og fjallað var um í gær er dregin fram sviðsmynd af tölvuleikjaiðnaðinum eftir 10 ár þar sem gert er ráð fyrir því að greininni hafi tekist að komast í eins konar óskastöðu. Er þar gert ráð fyrir að velta geti numið um 72 milljörðum króna á ári og að starfsmenn verði um 1.200 talsins. Til þess að það náist þurfa þó atriði eins bætt rekstarumhverfi, auðveldari leiðir til að sækja mannauð og fjármagn að komast á stað sem er samkeppnishæfur í alþjóðlegum samanburði að sögn Vignis Guðmundssonar formanns Samtaka leikjaframleiðenda (IGI), og þróunarstjóra hjá CCP.

Sjá einnig: Yfir 100 milljarða velta

„Þegar lönd eins og til að mynda Finnland, Bretland eða Kanada eru skoðuð þá sést greinilega að þau sjá mikil tækifæri í því að vera með öflugan og vaxandi leikjaiðnað. Þau hafa beitt sér hvert á sinn hátt í að stilla upp framsæknum aðgerðum í þágu öflugs leikjaiðnaðar enda er mjög eftirsóknarvert að skapa sér sess í stærsta afþreyingariðnaði í heimi. Með því að leggja upp í þessa vegferð saman getum við því rennt stoðum undir að tölvuleikjaiðnaður verði ein öflugasta útflutningsgreinin hér á landi.“

Þverfaglegur iðnaður 

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að eitt af þeim atriðum sem standi tölvuleikjaiðnaðinum fyrir þrifum sé skortur á sérfræðingum og fólki með menntun tengdri greininni, bæði hér innanlands en einnig hvað varðar aðgengi að erlendum sérfræðingum. Að sögn Vignis þarf bæði að auðvelda erlendum sérfræðingum að koma hingað til lands en einnig að menntakerfið skerpi á undirbúningi þeirra sem  sækjast eftir því að starfa  í iðnaðnum.

„Greiningin í skýrslunni kemur inn á að við þurfum að efla og bæta okkur og okkar innviði til að fá erlenda sérfræðinga til landsins og gera ferlið auðveldara. Það hafa verið tekin góð skref í þeim málum eins og vefsíðan Work in Iceland en við þurfum hins vegar að gera miklu meira bæði við að einfalda fólki að finna landið, spennandi tækifæri og að geta haslað sér völl hér. Svo þurfum við halda áfram að vinna með menntakerfinu og þeim aðilum sem geta og eru að undirbúa fólk til að starfa í hugvitsdrifnum atvinnugreinum.

Hvað varðar leikjaiðnaðinn sérstaklega þá varðar það ekki bara forritara eða þá sem vinna að leikjahönnun heldur líka að viðskiptamenntað fólk fái undirbúning í gegnum sitt nám með því að vinna með viðskiptamódel og annað sem tengist leikjaiðnaðinum. Þetta snýr einnig að vöruhönnuðum, grafískum hönnuðum, listamönnum og öðrum í skapandi greinum. Þetta er mjög þverfaglegur iðanaður og um leið og við náum að vekja meiri athygli á hversu mörg og fjölbreytt tækifærin eru í tölvuleikjaiðnaði þá verður það mjög mikil búbót. Bæði í verk- og tæknigreinum en ekki síður í hinum stoðgreinunum. Ég tek hjartanlega undir það sem kemur fram í skýrslunni að setja það sem markmið í menntakerfinu að við fjölgum útskrifuðum tölvunarfræðingum úr 200-250 ári upp í 500 á næstu fimm til tíu árum,“ segir Vignir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér