*

mánudagur, 1. júní 2020
Innlent 27. október 2018 13:09

72 milljóna tap hjá Becromal

Tap Becromal dróst verulega saman milli ára þar sem 5,3 milljarða króna tap var bókfært á fyrra rekstrarári.

Ritstjórn
Aflþynnuverksmiðja Becromal á Krossanesi við Eyjafjörð.
Aðsend mynd

Félagið Becromal Iceland ehf., sem rekur aflþynnuverksmiðju á Akureyri, tapaði 521 þúsund evrum á síðasta rekstrarári sem lauk 31. mars 2018, sem nemur 72 milljónum króna miðað við núverandi gengi krónunnar.

Tapið dróst verulega saman milli ára því 5,3 milljarða króna tap var bókfært á fyrra rekstrarári, sem skýrðist af stærstum hluta af virðisrýrnun tækjabúnaðar. Eigið fé félagsins var neikvætt um 38 milljónir evra, um 5,2 milljarða króna í lok rekstrarársins. Í skýrslu stjórnar segir að stjórnendur félagsins telji sig hafi næg úrræði til að halda rekstrinum áfram.

Eignir félagsins eru metnar á 45 milljónir evra, en skuldir við 83 milljónum evra. Þar af nam skuld við móðurfélagið Becromal SpA á Ítalíu 51 milljón evra. Rekstrartekjur námu 75,1 milljón evra og jukust um 8,4 milljónir evra milli ára. Rekstrarhagnaður nam 1,5 milljónum evra.

Stikkorð: Becromal