72,3 prósent íbúa Reykjanesbæjar eru samþykkir því að annars konar orkufrekur iðnaður verði settur á fót í Helguvík ef ekki rís þar álver, meðan 27,1 prósent aðspurðra eru andvíg stofnun slíks iðnaðar. Sagt er frá þessu á vef Víkurfrétta.

Þetta eru niðurstöður síma- og netkönnunar sem MMR framkvæmdi 1. til 6. desember síðastliðinn. Óformlegur hópur um atvinnuuppbyggingu á Reykjanesi lét framkvæma könnunina. Úrtak könnunarinnar var 1201 einstaklingar, en svarhlutfallið var 45,4 prósent.

Í könnuninni var fólk einnig spurt hvort það væri hlynnt eða andvígt iðnaðaruppbyggingu í Helguvík. Af þeim sem tóku afstöðu voru 71,9 prósent hlynnt og 28,1 prósent andvíg.

Sé svörunum skipt niður voru 12,1 prósent mjög andvíg iðnaðaruppbyggingu i Helguvík og 16 prósent frekar andvíg. Þá voru 41,5 prósent frekar hlynnt og 30,3 prósent mjög hlynnt.