Hagnaður hugbúnaðarfyrirtækisins Annata eftir skatta og fjármagnsliði nam um 728 milljónum króna sem er viðsnúningur upp á 892 milljónir frá 2019. Hagnaður Annata af reglubundinni starfsemi nam 936 milljónum króna árið 2020 og jókst um 1.054 milljónir króna milli ára. Þetta kemur fram í tilkynningu

Það sem af er ári nemur tekjuvöxtur fyrirtækisins um 60% frá fyrra ári en vöxturinn er drifinn áfram af auknum vexti í áskriftarsölu eigin hugbúnaðar, Annata 365, sem skilaði 59% vexti á tímabilinu. Undanfarin ár hefur Annata fjárfest verulega í þróun á eigin skýjalausnum fyrir bifreiða- og vinnuvélaiðnaðinn og unnið markvisst að uppbyggingu á erlendum mörkuðum, en yfir 90% af tekjum Annata-samstæðunnar eru erlendar.

Laun og tengd gjöld námu 2.173 milljónum króna og lækkuðu um 662 milljónir króna á milli ára. Kostnaðarverð seldra vara jókst um 30 milljónir frá 2019 og var 340 milljónir króna. Annar rekstrarkostnaður nam 313 milljónum króna og lækkaði um 92 milljónir sem að mestu er rakið til lækkunar í ferðakostnaði starfsfólks.

Heildareignir hækkuðu um 312 milljónir og námu 2.501 milljón króna 31. desember 2020. Eigið fé nam 1.955 milljónum króna og eiginfjárhlutfall var ríflega 78% í lok árs 2020 en var tæplega 55% árið áður. Meðalfjöldi starfsígilda var 185 og þar af störfuðu um 40 manns í höfuðstöðvunum á Íslandi en stærstu starfsstöðvar Annata eru í Bretlandi og Malasíu.

Viðsnúngir eftir fyrstu bylgjuna

Á öðrum ársfjórðungi 2020 varð mikill samdráttur þegar mörg verkefni Annata voru tímabundið sett á ís í fyrstu bylgju COVID-19. Kröftugur viðsnúningur varð hins vegar á seinni helmingi ársins vegna aukinnar eftirspurnar eftir hugbúnaðarlausnum Annata sem stuðla að stafrænni umbreytingu fyrirtækja. Aukin áskriftarsala eigin lausna skilaði fyrirtækinu methagnaði en mikill tekjuvöxtur á fyrstu tveimur ársfjórðungum ársins 2021 gefur vísbendingar um að hagnaður Annata muni aukast enn frekar á árinu.

„Við erum gríðarlega stolt af þeim mikla árangri sem náðist árið 2020 þrátt fyrir mikla óvissu í upphafi árs. Það er ljóst að þau áhrif sem COVID-19 hefur haft á starfsemi fyrirtækja hafa orðið til þess að auka eftirspurn eftir lausnum Annata og hin mikla þróunarvinna sem starfsfólk Annata hefur unnið að undanfarin ár er að skila miklum vexti í vaxandi langtímasamningum um allan heim.  Vöxtur Annata er mikilvæg viðurkenning á störfum okkar og vil ég þakka öllu starfsfólki sérstaklega fyrir frábært starf á miklum óvissutímum.  Við horfum björtum augum til framtíðar og sjáum áframhaldandi tækifæri til vaxtar," segir Jóhann Ólafur Jónsson, forstjóri Annata.

Sjá einnig: Íslenskt fyrirtæki í úrslitum Microsoft

Fyrr í mánuðinum tilnefndi Microsoft Annata í úrslitahóp um val á samstarfsaðila ársins á sviði hugbúnaðar fyrir bíla- og tækjaiðnað (e. Microsoft Automotive Partner of the Year 2021 finalist). Jafnframt hefur Annata verið valið í alþjóðlegan úrvalshóp (Inner Circle) um 1% samstarfsaðila Microsoft, sjötta árið í röð, en í þann hóp eru valdir samstarfsaðilar sem skara fram úr og ryðja brautina í lausnaframboði Microsoft um allan heim.