Atvinnuleysi í ágúst mældist 7,3%. Það er um 0,2% minna en í júlí. Vinnumálastofnun birti tölur um atvinnuleysi í gær.

Greining Íslandsbanka fjallar um atvinnuleysistölur í dag og segir að árstíðarsveiflan valdi því að yfirleitt dragi úr atvinnuleysi milli þessara tveggja mánaða.

Að meðaltali voru 12.096 manns án atvinnu í ágúst og fækkaði um 473 á milli mánaða. Í ágúst í fyrra voru að meðaltali 13.387 manns án atvinnu, eða um 7,7% af vinnuafli.

„Bótaþegum hefur því fækkað á milli ára og atvinnuleysið minnkað. Hert eftirlit og skertur bótaréttur fólks í námi getur skýrt þessa breytingu að hluta a.m.k.,“ segir í morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.