Skráð atvinnuleysi í september 2009 var 7,2% eða að meðaltali 12.145 manns og minnkar atvinnuleysi um 9,3% að meðaltali frá ágúst eða um 1.242 manns.

Þetta kemur fram á vef Vinnumálastofnunar en á sama tíma á árinu 2008 var atvinnuleysi 1,3%, eða 2.229 manns.

Atvinnuleysi er nú mest á Suðurnesjum 12,1% en minnst á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra 1,8%. Atvinnuleysi minnkaði á höfuðborgarsvæðinu um 11% en minnkar um 4,3% á landsbyggðinni.

Þá kemur fram að fjöldi þeirra sem hafa verið atvinnulausir lengur en 6 mánuði minnkar úr 7.457 í lok ágúst í 7.397 í lok september og eru þeir nú tæp 54% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá. Þeir sem verið hafa atvinnulausir í meira en ár voru 1.024 í lok september en 779 í lok ágúst.

Sjá nánar á vef Vinnumálastofnunar.