Vöruskipti voru hagstæð um 7,3 milljarða króna í janúar, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar um viðskipti við útlönd.

Fram kemur á vef Hagstofunnar að samkvæmt bráðabirgðatölunum nam verðmæti útflutnings tæpum 48,3 milljörðum króna en innflutnings 40,9 milljörðum króna.

Verður þetta niðurstaðan þá er þetta næstmesti afgangur af vöruskiptum sem sést hefur hér á landi síðastliðin tíu ár. Í janúar í fyrra nam afgangurinn rétt rúmum 11 milljörðum króna. Annars hefur afgangurinn ekki náð sjö milljörðum króna eða verið neikvæður.