Um 73% landsmanna er ósáttur við þá ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, að segja ekki af sér þingmennsku.

Þetta kemur fram í könnun MMR sem unnin var fyrir Viðskiptablaðið.

Rúmlega 10% landsmanna eru sátt við ákvörðun Guðlaugs Þórs en 16% þátttakenda segjast hvorki vera sátt né ósátt.

Styrkjamál ýmissa stjórnmálamanna, þ.á.m. Guðlaugs Þórs voru mikið í umræðunni sl. vor en hann fékk háa styrki frá hinum ýmsu fyrirtækjum fyrir þátttöku í prófkjörum. Sú umræða leiddi meðal annars til afsagnar Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, fyrrv. þingmanns Samfylkingarinnar.

Sjálfstæðismenn virðast þó nokkuð einarðir í afstöðu sinni en tæplega 70% kjósenda Sjálfstæðisflokksins eru ósátt við þá ákvörðun Guðlaugs Þórs að segja ekki af sér þingmennsku á móti rúmlega 30% sem eru sátt.

Þegar horft er til hinna flokkanna eru kjósendur þeirra, sérstaklega vinstri flokkanna, mjög ósáttir við að Guðlaugur Þór hafi ekki sagt af sér þingmennsku. Afstaða kjósenda Framsóknarflokksins er á svipuðu róli og kjósenda Sjálfstæðisflokksins.

Nánast enginn munur er á afstöðu kynjanna eða eftir aldri. Þá er heldur ekki marktækur munur á afstöðu fólks eftir búsetu, menntun eða starfi.