Ásta Dís Óladóttir, forseti viðskiptadeildar Háskólans á Bifröst, flutti erindi á aðalfundi Samtaka verslunar og þjónustu í gær þar sem hún ræddi um mikilvægi verslunar og þjónustu fyrir hagkerfið. Ásta Dís fjallaði um augljóst mikilvægi verslunar og þjónustu fyrir hagkerfið sem sjá mætti best á því að 73% vinnuafls á Íslandi starfar innan vébanda verslunar og þjónustu.  En sökum mikilvægi þessarar atvinnugreinar fyrir hagkerfið þyrfti að efla enn frekar rannsóknir sem skiptu máli fyrir atvinnugreinina.

,,Það umhverfi sem við okkur blasir í dag er ekki beint uppörvandi og það er lítið hvetjandi.  Það umhverfi sem við búum við í dag virkar eins og öfugur spírall á atvinnulíf á Íslandi.  Við sjáum samdrátt í einkaneyslu, hækkanir á vöruverði, samdrátt í sölu, lágt gengi krónunnar, samdrátt í kaupmætti, vaxtahækkanir og síðast en ekki síst, væntingar almennings og atvinnulífs eru ekki miklar," sagði Ásta Dís í ræðu sinni.