American Airlines stefnir á að hefja farþegaflug með Boeing 737 Max flugvélum sínum á ný fyrir árslok. Til að það gangi upp þurfi félagið þó endanlega að fá grænt ljós frá bandarískum flugmálayfirvöldum. Líkt og þekkt er orðið hafa Boeing 737 Max flugvélarnar verið kyrrsettar á alþjóðavísu frá því í mars á síðasta ári í kjölfar tveggja mannskæðra flugslysa. Reuters greinir frá.

Ef áætlanir félagsins ganga upp munu þoturnar snúa á ný í háloftin í daglegum ferðum milli New York og Miami á tímabilinu 29. desember til 4. janúar.

„Við munum áfram eiga í samskiptum við flugmálayfirvöld og Boeing um það hvenær vélarnar fá leyfi til að fljúga og munum halda áfram að uppfæra áætlanir okkar meðan línur taka að skýrast," segir í tilkynningu American Airlines.

Í tilkynningu bandarískra flugmálayfirvalda segir þó að engin tímalína sé komin á það hvenær vélarnar fái samþykki fyrir að hefja flug á ný. Það sé ljóst að vélarnar muni ekki hljóta slíkt samþykki fyrr en öryggissérfræðingar séu fullvissir um að þær standist allar öryggiskröfur.